common sense is not that common

Tuesday, June 08, 2010

Farið yfir ferilskrána

Þurfti fyrr í vikunni að láta skanna í tölvu meðmælabréf og aðra pappíra vegna nýs hlutastarfs sem ég er búin að næla mér í, gersamlega með annarri hendinni.

Þegar maður skannar gögn til sendinga er mjög mikilvægt að vinnsa út það sem ekki lúkkar nógu vel en gera mikið úr hinu sem gerir mann gáfaðri. Það má líkja ferilskrá við kjól sem dregur fram það besta en felur hugsanlegar fellingar.

Á meðan tölvumaðurinn góði skannaði inn gögnin blaðaði ég í gegnum bunkann og setti til hiðar það sem ég taldi mér ekki til framdráttar (þ.á.m einkunnaspjöld sem varla eru birtingarhæf nema sem gögn um umsókn í sérdeild).

Efst í bunkanum voru tvö meðmælabréf frá fyrrum atvinnuveitendum. Rak augun í orð eins og “fljót að tileinka sér markviss vinnubrögð, afkastamikil, sjálfstæð og útsjónarsöm og býr yfir frumkvæði í starfi.”
Lét síðan skanna inn eitt meðmælabréf frá Noregi, bara til öryggis, það er nú kreppa og aldrei að vita hvar maður endar.

Þá kemur réttindabréfið góða um að ég megi starfa sem sálfræðingur (kemur alltaf jafn mikið á óvart). Bréfið er á ósköp venjulegum ljósritunarpappír í stærðinni A-4, frekar leim eitthvað.
Á útskriftarplagginu frá Háskólanum í Árósum er föðurnafn mitt vitlaust stafsett nema hvað, danirnir eiga erfitt með allt flóknara en Jensen og Hansen.

Þó að leyfisbréfið sé afskaplega praktískt og hafi gefið mér salt í grautinn síðastliðin tíu ár er ég samt eiginlega stoltust af skírteini sem ég fékk eftir að hafa tekið (og staðist) fréttamannapróf Ríkisútvarpsins árið 2005. Bréfið er á gerðarlegu bréfsefni í litprenti (annað en sálfræðileyfisbréfið) og undirritað af Páli Magnússyni útvarpsstjóra. Langar helst að ramma það inn og hengja upp á vegg.

Af ofansögðu skil ég hreinlega ekki hvers vegna ég er ekki komin til æðstu metorða. Nema ég sé það, verktakar hjá Kópavogsbæ hafa nú hingað til ekki þótt vera neinir aukvisar.

Monday, June 07, 2010

Vill einhver fá far?

Er á leið til Egilsstaða sunnudaginn 13 júní.
Ef einhver vill fá far er það sjálfsagt en rétt að taka eftifarandi fram:

Ekið verður á Toyota Yaris bifreið árgerð 2004. Áætlaður ferðatími er sjö til átta tímar og er áætlaður brottfarartími um hádegið. Ekið verður á 90 km hraða megnið af leiðinni (helvítis Blöndóslöggann alltaf í leyni og getur verið til vandræða).
Boðið verður upp á léttar veitingar um borð og má því gera ráð fyrir að bílstjórinn verði orðin vel hífaður í Öxnadalnum og gersamlega hellaður í Mývatnssveitinni.
Er þegar búin að múta Siggu löggu á héraðinu svo það ætti ekki að verða vesen. Þarf varla að taka fram að hún er náskyld mér og væri illa í ætt skotið ef hún hefði snefil af ábyrgðartilfinningu. Enda veitir henni ekki af aurnum, einstæðri móðurinni.

Þá verður saga boutice opin (restinn af gamla dótinu sem ég náði ekki að selja í Kolaportinu á laugardeginum). Kannski ég hætti við að selja kokteilhristarann, hann er nauðsynlegur í ferðalagið.

Rétt er að taka fram að búast má við að bílstjórinn verði frekar meir á Möðrudalsöræfunum og gæti brostið í tár (hvað er það? einhver óstjórnleg fortíðarþrá sem grípur mig á þessum slóðum).
Annars má gera ráð fyrir góðum geðsveiflum alla leið og allir í stuði!

Áhugasamir vinsamlega skiljið eftir nafn og símanúmer á commentakerfinu.

Af skiljanlegum ástæðum þarf ég að takmarka fjölda farþega við tvo, mega gjarnan kunna að skipta um dekk.